Í Vegvísi Landsbankans er lesið í væntingavísitölu Gallup fyrir október og þar segir að fleiri Íslendingar telja að ástandið verði betra eftir hálft ár en þeir sem eru svartsýnir.

Þetta er breyting á þar sem þrjá síðustu mánuði hafa heldur fleiri verið svartsýnir. Væntingavísitalan til 6 mánaða hækkar því um 13,5 stig og mælist 110,7.

Mestu munar að yfir fjórðungur svarenda telur að heildartekjur sínar verði hærri eftir hálft ár. Þá fjölgar þeim sem telja að efnahagsástandið verði betra og þeim sem telja að það verði verra fækkar talsvert þótt hinir svartsýnu séu enn aðeins fleiri. Væntingavísitalan í heild hækkar um tæplega 10 stig og mælist 133,6 stig sem er nokkuð nálægt 12 mánaða meðaltali. Gildið 100 þýðir að jafn margir eru jákvæðir og neikvæðir. Yfir 100 þýðir að meirihluti er jákvæður.

Sú aukna bjartsýni sem mælist milli mánaða kemur nær öll fram í tveimur tekjuhærri hópunum, þ.e. hjá þeim sem hafa 400 þúsund eða meira á mánuði. Væntingavísitala tekjuhæsta hópsins (yfir 549 þúsund á mánuði) er 150,4 stig sem er ögn yfir meðalgildi ársins. Vísitala tekjulægsta hópsins er 103,6 sem er nokkuð undir meðalgildi ársins. Þótt almennt virðist sem tekjuhærri hóparnir séu bjartsýnni og væntingavísitala þeirra hærri hefur munurinn á tekjuhæsta og tekjulægsta hópnum ekki mælst svo mikill það sem af er árinu.