Ríkisstjórn Joe Biden hefur kallað eftir alþjóðlegu lágmarki á fyrirtækjasköttum. Meðal tillaga ríkisstjórnarinnar er að stærstu alþjóðlegu fyrirtæki heims greiði skatta ofan á sölu í hverju landi. Þetta kemur fram í skjölum sem Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna sendi til þeirra 135 ríkja sem semja nú um alþjóðlega skatta hjá OECD í París. Financial Times greinir frá.

Hugmyndir Bandaríkjanna eru að skattagólfið verði í kringum 21% en fyrirtækjaskattar eru að jafnaði um 24% víðs vegar um heim. Fjármálaráðuneytið hefur lagt til að skattareglan nái eingöngu til allra stærstu og arðbærustu fyrirtækja óháð geirum. Ekki hefur verið tilgreint um nákvæm tekju- eða hagnaðarviðmið skattareglanna en talið er að skatturinn nái til færri en hundrað fyrirtækja, þar á meðal stóru bandarísku tæknifyrirtækjanna.

„Saman getum við nýtt alþjóðlega lágmarksskatta til að tryggja að alþjóðlega hagkerfið blómstri með jafnari stöðu í skattlagningu fjölþjóðlegra fyrirtækja og þannig örvað nýsköpun, vöxt og hagsæld,“ sagði Janet Yellen í ræðu fyrir hugveituna Chicago Council on Global Affairs á mánudaginn síðasta.

Sjá einnig: Fjármagnar innviði með hærri sköttum

Tillagan myndi ná til hagnaðar stóru tæknifyrirtækjanna óháð raunaðstöðu þeirra í hverju landi. Þessar hugmyndir ríkisstjórnar Biden eru hugsaðar samhliða 2.500 milljarða dala hærri fyrirtækjasköttum í Bandaríkjunum á næstu fimmtán árum, til þess að fjármagna innviðaframkvæmdir, fjárfestingu í endurnýjanlegum orkugjöfum og iðnaði fyrir meira en 2.000 milljarða dala.

Evrópuríki fagna hærri sköttum á netrisana

Bandaríkjaforsetinn vonast með þessum tillögum til að stöðugra alþjóðlegt skattaumhverfi komi í veg fyrir að hver þjóð komi á fót stafrænum sköttum ásamt því að torvelda að fyrirtæki færi hagnað milli landa af skattalegum ástæðum.

Stjórnvöld í Washington hafa hótað tollum á lönd á borð við Frakkland, Bretland, Ítalíu og Spán, vegna stafrænna skatta sem myndu ná til bandarískra tæknifyrirtækja. Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, sagði að frönsk stjórnvöld myndu ekki leggja af stafræna skatta þar til samkomulag væri komið í höfn hjá OECD.

Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, segist styðja ákall Bandaríkjanna að fullu. Þýska fjármálaráðuneytið fagnaði einnig „uppbyggjandi viðhorfi“ Biden stjórnarinnar en þýsk stjórnvöld vonast til að samkomulag um málið náist um mitt ár 2021. Fjármálaráðuneyti Bretlands segir tillöguna kærkomna þar sem auknar skattgreiðslur af stafrænum viðskiptum væru enn forgangsmál hjá stjórnvöldum þar í landi.

David Malpass, bankastjóri Alþjóðabankans, telur 21% lágmarksskattinn hins vegar vera nokkuð háan. Í viðtali við BBC veltir hann fyrir sér hvernig lágmarksskatturinn virki með öðrum áherslum líkt og kolefnissköttum og fjárfestingum í fátækum löndum.