Í kringum helmingur af öllu seldu magni á íslenskum fiskmörkuðum fer í gegnum Fiskmarkað Íslands, sem er stærsti fiskmarkaður landsins. Nú starfar fyrirtækið á níu stöðum í kringum landið en framkvæmdastjóri Fiskmarkaðarins, Páll Ingólfsson, segir fyrirtækið hafa tekist vel til með að halda rekstri hans stöðugum síðustu ár. Gengið hefur vel í sölu en því til stuðnings nefnir hann að selt magn síðastliðin þrjú ár hafi að meðaltali numið 37.800 tonnum og verðmæti hans að meðaltali í kringum 10.616 milljónir króna.

Fram undan eru mörg krefjandi verkefni að sögn Páls. „Helstu áskoranir fyrirtækisins á næstu misserum eru þær að fiskur, þá aðallega þorskur og ýsa sem hingað til hafa verið undirstaðan í verðmætum, hafa á undanförnum vikum og mánuðum verið að leita út af íslenskum fiskmörkuðum og í bein viðskipti aðila á milli. Viðfangsefnið fram undan er að tryggja og auka framboð á fiskmörkuðum til þess að þjónusta þær fiskvinnslur sem ekki eru í útgerð og ekki síður til þess að verðmyndun á fiski verði sem raunhæfust.“

Varðandi stefnu stjórnvalda í sjávarútvegi þá segir Páll að margt þurfi að bæta til að greiða fyrir rekstri Fiskmarkaðarins og sjávarútvegsfyrirtækja almennt.

„Það sem snýr fyrst og fremst að stjórnvöldum í þessu sambandi er að undanfarin mörg ár hafa ákvarðanatökur stjórnvalda verið í þá veru að magn á fiskmörkuðum minnkar, m.a. með byggðakvótum. Þó hafa ákveðniráfangar náðst, t.a.m. nú um síðastliðin áramót var greiðslumiðlun í sjávarútvegi lögð af en það fyrirkomulag skekkti samkeppnisstöðu fiskmarkaða við bein viðskipti.

Fjallað er um Fiskmarkaðinn í blaðinu 462 framúrskarandi fyrirtæki sem dreift var með Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Þar er Fiskmarkaðurinn í 130. sæti. Í blaðinu er fjallað um þau fyrirtæki sem stóðust styrkleikamat Creditinfo og komust í hóp framúrskarandi fyrirtækja. Nálgast má blaðið með því að smella á hlekkinn Tölublöð .