Samtök atvinnulífsins mótmæla áformum um skattahækkanir á stóriðju, sjávarútveg og banka vegna fjárlagagerðar fyrir árið 2012. SA telja áformin afar misráðin og benda á að allt kapp verði að leggja á að auka fjárfestingar og hagvöxt eins og stefnt var að við gerð kjarasamninga og fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí sl.

Þetta kemur m.a. fram í bréfi Samtaka atvinnulífsins til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra.

Í bréfinu kemur fram það mat SA að skattheimta á Íslandi sé komin á ystu mörk og engin efni til að hækka skatta frekar en orðið er enda sé Ísland í 4.-5. sæti yfir mestu skattalönd heimsins þegar skoðað er hlutfall skatttekna af landsframleiðslu og tekið er tillit til mismunandi fyrirkomulags lífeyrismála.

SA telja að þau áform sem kynnt hafa verið um skattahækkanir beri þess merki að ákveðin uppgjöf hafi orðið við að ná endum saman í ríkisbúskapnum. Ítarleg rök eru færð fyrir því í bréfi SA að hækkun skatta á stóriðju, sjávarútveg og fjármálafyrirtæki sé skaðleg fyrir íslenskt efnahagslíf og leggjast því Samtök atvinnulífsins eindregið gegn áformum ríkisstjórnarinnar.

„Aukin skattheimta felur í sér uppgjöf gagnvart því verkefni að efla atvinnulífið, ná niður atvinnuleysinu og bæta lífskjör þjóðarinnar til frambúðar,” segja Vilmundur Jósefsson, formaður SA, og Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, í niðurlagi bréfsins.