Á undanförnum árum hafa umsvif fjárfestingafélaga vaxið mikið. Félögin fjárfesta í skráðum sem óskráðum fyrirtækjum, hérlendis sem erlendis, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Rekstur fjárfestingafélaga einkennist ýmist af verðbréfafjárfestingum, áhrifafjárfestingum eða jafnvel af rekstri dótturfélaga. Sum fjárfestingafélög sérhæfa sig á ákveðnum sviðum eða leggja mesta áherslu á viðkomandi grein, t.d. fasteignafélög. Eignaverð hefur hækkað mikið á undanförnum árum og hafa fjárfestingafélögin notið góðs af því, einkum vegna hækkunar á hlutabréfaverði og fasteignaverði," segir greiningardeildin.

Greiningadeildin spáir því hægja taki á þessum mörkuðum innanlands og ekki eru líkur á sambærilegri ávöxtun líkt og hefur verið hér undanfarin ár, því hafa félögin í auknu mæli litið út fyrir landsteinana.

?FL Group hefur til að mynda aukið verulega við fjárfestingar erlendis, og stærri fasteignafélög hafa einbeitt sér að eignakaupum á Norðurlöndum. Í dag eru nokkur fjárfestingafélög skráð í Kauphöll Íslands og stendur til að þeim fjölgi með skráningu Exista í ár sem er vel," segir greiningardeildin.

Það er ekkert fasteignafélag skráð í Kauphöllina, ?en áhugavert væri að sjá hvort áhugi fjárfesta væri fyrir slíkri viðbót því sjóðstreymi slíkra félaga er alla jafna stöðugt. Aukin fjölbreytni fjárfestingakosta er að öllum líkindum kærkomin þar sem að vægi fjármálafyrirtækja í Kauphöllinni er enn yfirgnæfandi," segir greiningardeildin.