Hagnaður Hamborgarafabrikkunnar jókst úr tæpum 11 milljónum króna árið 2017 í 21 milljón króna á árinu 2018. Á sama tíma náði félagið í fyrsta skipti að greiða niður allar vaxtaberandi skuldir, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. „Strax í byrjun árs 2018 lögðum við upp mjög skipulegan varnarleik a'la Lars og Heimir, sem gerir það að verkum að Fabrikkan er á mjög góðum stað til að takast á við fjölbreyttar áskoranir á veitingamarkaði", segir Jóhannes Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Hamborgarafabrikkunnar.

Veitingasala ársins 2018 nam 732 milljónum króna sem er 6% lækkun frá árinu 2017. Í tilkynningunni segir að minni veitingasala skýrist aðallega af breyttum opnunartíma Fabrikkunnar á Akureyri, en þar var ákveðið að hafa lokað í hádeginu yfir vetrartímann. Rekstrargjöld voru 697 milljónir króna sem er 7% lækkun frá árinu 2017 þegar þau voru 745 milljónir króna. Fullum stöðugildum fækkaði úr 51 í 45 á milli ára. Óráðstafað eigið fé samstæðunnar í árslok 2018 er 135 milljónir króna. Eignir námu 255 milljónum króna og skammtíma viðskiptaskuldir námu 119 milljónum króna.

„Við höfum dregið saman seglin í yfirbyggingu félagsins síðasta árið og m.a. sögðum við upp húsnæði skrifstofu Fabrikkunnar sem var á 12. hæð á Höfðatorgi. Á sama tíma höfum við lagt áherslu á að auka gæði allra rétta á matseðli og höfum m.a.  stækkað hamborgarakjötið úr 120g í 130 og aukið fitumagnið úr 16% í 20% sem gerir kjötið safaríkara og betra," bætir Jóhannes við.

Hamborgarafabrikkan á Akureyri í hendur nýrra eigenda

Fabrikkan opnaði sinn annan veitingastað á jarðhæð Hótel KEA þann 15. maí 2013. Þann 1. júní nk. verða kaflaskil í sögu Fabrikkunnar á Akureyri þegar Jóhann Stefánsson og Katrín Ósk Ómarsdóttir taka formlega við rekstrinum í svokölluðu "franchise" fyrirkomulagi, en þau eiga og reka tvo Lemon staði í sama fyrirkomulagi á Akureyri.

„Við höfum velt þessum möguleika fyrir okkur í nokkurn tíma en þegar við hittum Jóhann og Katrínu sannfærðumst við um að við hefðum fundið réttu samstarfsaðilana," segir Jóhannes. „Okkur þykir einstaklega vænt um Fabrikkuna okkar fyrir norðan og reksturinn hefur alltaf gengið vel, en fjarlægðin er okkur hins vegar ákveðin fyrirstaða. Eftir vel heppnuð sex ár í rekstri náði félagið að greiða upp allar sínar vaxtaberandi skuldir á árinu 2018. Það er því frábær tímapunktur fyrir nýja rekstraraðila til að koma að rekstrinum núna og taka næstu skref í sögu félagsins. Við erum sammála um tækifærin sem liggja fyrir félaginu á næstu árum og að Akureyringarnir Katrín og Jóhann séu í betra færi til að ná til þeirra. Það er stærsta ástæðan fyrir því að okkur fannst spennandi að fara með staðinn í leyfisfyrirkomulag sem þetta."

Í tilkynningunni segir að Jóhann Stefánsson og Katrín Ósk Ómarsdóttir séu „kunnug staðháttum" í veitingarekstri á Akureyri. Þau hafi tekið við rekstri Lemon á Akureyri á vormánuðum 2017 í samskonar leyfisfyrirkomulagi og Hamborgarafabrikkan verður rekin í. Það sé skemmst frá því að segja að rekstur Lemon hafi gengið vel og nýverið hafi þau opnað stað númer tvö á Ráðhústorgi.

„Við erum afar spennt fyrir því að fá að reka Fabrikkuna hér á Akureyri. Þetta er einn af risunum á íslenskum veitingamarkaði og í alla staði frábært vörumerki. Við erum sannfærð um að þessar breytingar munu efla Fabrikkuna hér fyrir norðan enda er það lögmál í veitingarekstri að rekstraraðilar þurfa að vera á staðnum með huga og hönd til að allt geti gengið sem best," segir Jóhann. Engar breytingar verða á Hamborgarafabrikkunni á Akureyri, hvorki hvað varðar staðinn sjálfan, starfsfólk eða matseðil. „Við tökum við frábærum stað með frábæru fólki sem ætlar að starfa með okkur áfram. Við hlökkum mikið til sumarsins hér fyrir norðan", segir Katrín Ósk.