Vaxtakostnaður ríkisins er töluvert meiri vegna þeirrar fjármögnunar sem Fjármálaráðuneytið tilkynnti um í gær en vegna annarra lána sem ríkið hefur verið að greiða af að undanförnu. Í tilkynningunni frá ráðuneytinu kemur fram að ávöxtunarkrafan sé 6% á skuldabréfaútgáfunni. Útgáfan hljóðaði upp á 1 milljarð Bandaríkjadala, eða um 124 milljarða króna. Miðað við þetta er vaxtakostnaður af lántökunni um 7,44 milljarðar. Því til frádráttar koma svo þær vaxtatekjur sem fást við fjárfestingu lánsins.

Til samanburðar má nefna að vaxtakostnaður við lán Norðurlandanna var áætlaður um 3,3% í tilkynningu frá Seðlabankanum í september 2010. Vaxtakostnaðurinn vegna Norðurlandalánanna miðast við breytilega útlánavexti á evrópskum millibankamarkaði (Euribor) auk 2,75% álags.  Í september 2010 voru vaxtatekjur áætlaðar miðað við þýska ríkisvíxla, en slíkir víxlar bera í dag 0% ávöxtunarkröfu, bæði til þriggja og sex mánaða.

Ljóst er að þau kjör sem ríkið fékk í skuldabréfaútgáfunni í gær eru talsvert lakari en vaxtakjörin sem fyrri lán voru á. Þau lán voru tekin í tengslum við samstarfsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda.