*

mánudagur, 8. mars 2021
Innlent 23. febrúar 2021 11:32

Auknar endurgreiðslur VSK 5,6 milljarðar

Rúmlega 40 þúsund umsóknir eftir endurgreiðslu VSK hafa verið afgreiddar síðan hlutfallið var hækkað í 100%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Frá því að ríkisstjórnin hækkaði endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 60% í 100% til að bregðast við efnahagsáhrifum heimsfaraldursins hafa 5,6 milljarðar króna verið endurgreiddir aukalega. Þetta kemur fram í tilkynningu Fjármála- og efnahagsráðuneytisins. 

Endurgreiðslan nær til vinnu manna við íbúðarhúsnæði á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2021. Heimildin til endurgreiðslu var einnig víkkuð út og nær til frístundahúsnæðis, mannvirkja í eigu tiltekinna félagasamtaka og bílaviðgerða. 

Í tilkynningunni segir að undanfarið hafi Covid-tengdar (viðbótar) endurgreiðslur numið að jafnaði um 300 milljónir króna í hverri viku. Alls hafa rúmlega 40 þúsund umsóknir verið afgreiddar. Þar af eru tæpar 27 þúsund vegna íbúðar- og frístundahúsnæðis, 13 þúsund vegna bíla, 100 frá almannaheillafélögum og 400 frá sveitarfélögum. Viðbótar endurgreiðslur vegna nýbygginga, endurbóta eða viðhalds hafa alls numið 4,2 milljörðum króna.