Hin 31 árs gamla Marlene Engelhorn, erfingi Friedrich Engelhorn sem stofnaði þýska efnaframleiðslufyrirtækið BASF á nítjándu öld, hefur falið 50 ókunnugum einstaklingum að ráðstafa 25 milljónum evra sem hún fékk í arf frá langömmu sinni árið 2022.

Að því er kemur fram í frétt Bloomberg hittist hópurinn um helgina en hópurinn hefur fengið nafnið Guter Rat, eða Góða ráðið. Hópurinn mun hittast sex helgar í röð og í kjölfarið ákveða hvert peningurinn á að fara.

Allir einstaklingarnir koma frá Austurríki og við valið var tölfræðilegum aðferðum beitt þannig hópurinn endurspegli sem best austurrísku þjóðina með tilliti til staðsetningar, aldurs, kynþáttar og fleiri þátta.

„Ég er bara einn heili, ég er bara ein manneskja þannig fyrir mér er það mikill léttir vitandi að ferlið í kringum endurdreifingu sé mikið réttmætara og nákvæmara og lýðræðislegra en ég gæti nokkurn tímann gert,“ sagði Engelhorn.

Tilkynnt var um verkefnið á blaðamannafundi í janúar en teymið á bak við Guter Rat sendi boð um þátttöku til tíu þúsund einstaklinga sextán ára og eldri sem valdir voru af handahófi. Af þeim vildu ríflega fjórtán hundruð taka þátt og voru að lokum 50 einstaklingar fyrir valdinu.

Engelhorn áður komið að stofnun hópsins TaxMeNow sem var ætlað að hjálpa fólki að dreifa auði sínum. Sjálf hefur hún gagnrýnt að arfur hennar hafi ekki verið skattlagður en Austurríki lagði erfðafjárskattinn niður árið 2008.