Avion Group hefur fyrir hönd dótturfélags síns Eimskips Atlas Canada, Inc. eignast 85,8% hlutafjár í Atlas Cold Storage Income Trust eða samtals 56,2 milljónir bréfa að nafnverði á genginu 7,5 kanada dollara á hlut að því er segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Avion tilkynnir einnig að félagið áformar að gera upp við hluthafa félagsins þann 1. nóvember og greiða hlutina þann 2. nóvember 2006. Skilyrði sem tilboðið var háð hafa nú verið uppfyllt, þar á meðal að Avion eignaðist a.m.k. 66 2/3% af hlutum í Atlas og engar stórvægilegar breytingar í tengslum við Atlas hafi átt sér stað sem hafi áhrif á tilboðið.

Í samræmi við ætlanir Avion Group um að eignast 100% hlut í Atlas ætlar félagið að grípa strax til aðgerða til að eignast útistandandi hlutafé Atlas. Gert er ráð fyrir að því ljúki í kringum 3. nóvember.

Atlas verður afskráð úr Kauphöllinni í Toronto um leið og talið er að félagið lúti ekki lengur reglum Kauphallarinnar. Gert er ráð fyrir því að það verði þann 3. nóvember.

"Við erum mjög ánægð með að hafa náð markmiðum okkar með Atlas. Yfirtakan var vinveitt og það er okkur mikils virði. Nú taka við spennandi tímar að samþætta rekstur Eimskips og Atlas," segir Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion Group í tilkynningunni.

Þann 16. október mælti stjórn Atlas með yfirtökutilboði Avion Group. Eftir ítarlega skoðun á valmöguleikum varðandi framtíðarstefnu félagsins ákvað stjórn Atlas Cold Storage að tilboð Avion Group væri hagstætt fyrir hluthafa Atlas og mælti stjórnin því einróma með því að hluthafar tækju nýju tilboði Avion Group. Fjárhagslegir ráðgjafar Atlas, BMO Capital Markets og Brascan Financial Real Estate Group komust einnig að niðurstöðu um að tilboð Avion Group væri hagstætt fyrir hluthafa Atlas.

Avion Group hefur unnið með KingStreet Capital Partners við gerð og fjármögnun yfirtökunnar. King Street í gegnum KingStreet Real Estate Growth LP No 2 leggur til fasteignir til að tryggja fjármögnun viðskiptanna.

Um Eimskip fyrir kaupin á Atlas

Eimskip býður viðskiptavinum sínum upp á heildarlausnir í flutningum, þ.m.t. skipaflutninga, flugflutninga og landflutninga með sérstakri áherslu á hitastýrða flutninga og geymslu. Þjónustunet félagsins nær um allan heim, en Eimskip rekur um 104 starfsstöðvar í Evrópu, N-Ameríku, S-Ameríku og Asíu. Félagið er með 40-50 skip í rekstri, um 1.400 flutningabíla og yfir 40 kæli- og frystigeymslur. Starfsmenn félagsins eru um 4.000 talsins.