Stjórn Avion Group hefur samþykkt tilboð frá hópi fjárfesta upp á 450 milljónir bandaríkjadala (30,6 milljarða króna) í eitt þriggja afkomusviða félagsins. Um er að ræða XL Leisure Group sem hefur verið leiguflugs- og ferðaþjónustuhluti Avion Group. Bókfærður hagnaður af sölunni fyrir skatta er 107 milljónir bandaríkjadala (7,3 milljarðar króna) að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Stjórn Avion Group hefur einnig samþykkt tilboð frá hópi fjárfesta í 51% hlut í Avion Aircraft Trading upp á 51 milljón bandaríkjadala (3,5 milljarða króna). 49% verða áfram í eigu Avion Group og er eignarhluturinn bókfærður á um 3 milljónir bandaríkjadala (200 milljónir króna). Bókfærður hagnaður af sölunni fyrir skatta er 47 milljónir bandaríkjadala (3,2 milljarðar króna).

Avion Aircraft Trading hefur keypt 24 flugvélar af Boeing og Airbus og byggist starfsemi félagsins á kaupum og sölum flugvéla. Kaupendur eru Hafþór Hafsteinsson stjórnarformaður Avion Aircraft Trading og Arngrímur Jóhannsson stofnandi Air Atlanta Icelandic ásamt lykilstjórnendum. Samhliða kaupunum lætur Hafþór Hafsteinsson af störfum sem forstjóri flugþjónustusviðs Avion Group.

Innan XL Leisure Group er Excel Airways Group í Bretlandi, Star Airlines í Frakklandi og nýstofnað félag í Þýskalandi ásamt fjölda dótturfélaga í sömu löndum. Afkomueiningin er seld í heild sinni. Kaupendur eru hópur fjárfesta og stjórnenda XL Leisure Group sem Phillip Wyatt, forstjóri félagsins leiðir.

Fjármögnun kaupanna er að fullu lokið og miðast viðskiptin við 31. október. Fjármögnunin er tryggð með veði í öllum hlutabréfum í XL Leisure Group. Avion Group veitir bakábyrgð vegna hluta fjármögnunar á kaupunum að upphæð 280 milljónir USD. Ábyrgðin gildir til 1. mars 2008. Avion Group hefur einnig samþykkt að fjármögnun sem samið hefur verið um fyrir XL Leisure Group vegna árstíðarbundinna sveiflna í rekstri félagsins verði í gildi fyrir veturinn 2006/2007 með umsömdum ábyrgðum frá félaginu.

Söluhagnaður Avion Group fyrir skatta vegna þessara viðskipta nemur 154 milljónum USD. Reiknaður söluhagnaðar miðast við bókfært virði þann 31. júlí 2006. Kaupin á XL Leisure Group eru háð samþykki breskra flugmálayfirvalda.

Hluti kaupverðsins er greiddur með hlutabréfum í Avion Group sem jafngildir um 22% hlut í Avion Group. Samhliða hefur félagið gert samkomulag við Straum-Burðarás Fjárfestingabanka um sölutryggingu á bréfunum.

?Avion Group er fjárfestingafélag á sviði flutningastarfsemi. Það felur í sér að við erum stöðugt að leita að fjárfestingatækifærum og erum jafnframt tilbúnir að selja ef um er að ræða tilboð sem við metum hagstæð fyrir hluthafa félagsins. Við erum að innleysa verulegan hagnað á stuttum tíma með sölunni á XL Leisure Group og Avion Aircraft Trading," segir Magnús Þorsteinsson stjórnarformaður Avion Group um viðskiptin í tilkynningu félagsins.