Flutningasamsteypan Avion Group sleit viðræðum við þýska leiguflugfélagið Aero Flight í fyrrinótt, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Avion átti í óformlegum viðræðum við þýska félagið en viðræðurnar strönduðu þar sem Aero Flight stóðst ekki fyrsta stigs áreiðanleikakönnun, segja heimildarmenn blaðsins.

Aero Flight hefur átt í rekstrarerfiðleikum og félagið missti flugrekstrarleyfi sitt í byrjun þessa mánaðar. Þýska viðskiptablaðið Das Handelsblatt sagði frá því fyrr í vikunni að Avion og Aero Flight ættu í viðræðum um að fyrrnefnda félagið myndi taka yfir útistandandi kröfur félagins, endurnýja flugrekstrarleyfið og fjárfesta um 10 milljónir evra (726 milljónir íslenskra króna) í Aero Flight.

Avion hefur unnið markvisst að því að styrkja sjálfstæðar einingar félagsins með yfirtökum og innri vexti. Talsmaður Avion sagði í samtali við Viðskiptablaðið að Aero Flight hefði ekki staðist væntingar félagsins og að það sé ólíklegt að Avion taki þátt í yfirtökum þangað til að félagið verður skráð í Kauphöll Íslands í janúar á næsta ári.