Ávöxtun hlutabréfa fjármálafyrirtækjanna hefur verið sveiflukennd á árinu þar sem myndarleg hækkun einkenndi fyrrihluta ársins en hröð lækkun hefur einkennt síðustu 5 mánuði. Þetta kom fram í morgunkorni Glitnis í morgun.

Meðal bankanna náði Landsbankinn mestri hækkun á árinu eða 68% um miðjan október en hefur lækkað um 20% frá því gildi. Til samanburðar hækkaði Kaupþing mest um 52% en hefur síðan lækkað um 31%.

Verstu hugsanlegu viðskipti með hlutabréf bankanna hefðu verið að kaupa hlutabréf Straums þann 18. júlí og selja þau skömmu fyrir jól því á þeim tíma lækkuðu hlutabréf Straums um 36% segir í morgunkorni Glitnis. Ávöxtun Kaupþings og úrvalsvísitölunnar er litlu betri á sama tíma eða -34% og -31%, hvort um sig. Hlutabréf Landsbankans hafa því gefið langbesta ávöxtun meðal innlendra banka á árinu.

Einnig kemur fram að ávöxtun hlutabréfa fjárfestingafélaganna hefur einnig sveiflast mikið innan ársins. Mest hækkun innan ársins varð hjá Exista þegar bréf félagsins höfðu hækkað um 79%. Bréf Atorku hækkuðu mest innan ársins um 69% og bréf FL Group um 30%.

Glitnir segir að bestu mögulegu viðskipti með hlutabréf fjárfestingafélaganna hefðu því verið að kaupa hlutabréf Exista í upphafi árs og selja þau um miðjan júlí. Verstu hugsanlegu viðskiptin hefðu hins vegar verið að kaupa hlutabréf FL Group seinnihluta febrúar og halda þeim til dagsins í dag því á þeim tíma hafa þau lækkað um 57%. Til samanburðar lækkuðu bréf Exista um 56% frá hæsta gildi og fram til jóla meðan bréf Atorku lækkuðu aðeins um 14% frá hæsta gildi sínu og fram til jóla.