Nú er liðin rúm vika frá því að skuldabréfaútboð ríkissjóðs í dollurum fór fram, hið fyrsta á erlendum mörkuðum frá árinu 2006. Kjörin sem fengust verða að teljast vel ásættanleg, 4,99% vextir, og á þeim dögum sem liðnir eru síðan útboðið fór fram hefur ávöxtunarkrafan hækkað lítillega, er nú rétt rúmlega 5%. Hafa ber í huga að þetta eru kjör á eftirmarkaði þannig að kostnaður ríkissjóðs er óbreyttur, en þau gefa vísbending um hvaða kjör fengjust í framtíðar útboðum.

Til samanburður má nefna að ávöxtunarkrafa á fimm ára skuldabréf ríkja sem einnig hafa lent í miklum efnahagshremmingum í kjölfar efnahagslægðar undanfarinna ára er talsvert hærri en krafan á hin nýju íslensku bréf. Þannig má nefna að ávöxtunarkrafa á bréf Grikklands er um 20% og á bréf Írlands og Portúgal er hún nær 13%. Spánn, Ungverjaland og Lettland eru á svipuðu reiki og Ísland.