*

mánudagur, 8. mars 2021
Erlent 22. febrúar 2021 11:50

BA frestar 81 milljarðs lífeyrisiðgjöldum

Breska flugfélagið má ekki greiða út arð næstu þrjú árin eftir að hafa náð samkomulagi um tveggja milljarða punda ríkistryggt lán.

Ritstjórn
epa

British Airways hefur náð samkomulagi við lífeyrissjóði um að fresta 450 milljóna punda lífeyrisiðgjöldum en það jafngildir 81 milljarði króna. Breska flugfélagið samþykkti að greiða ekki út arð næstu þrjú árin. Financial Times greinir frá. 

Fyrirtækið mun fresta mánaðarlegum 37,5 milljóna punda lífeyrisgreiðslum frá október á síðasta ári til september næstkomandi til að bæta lausafjárstöðu þess. BA mun leggja fasteignir að veði þar til búið verður að greiða frestuðu iðgjöldin til New Airways Pension Scheme (Naps), lífeyriskerfi starfsmanna BA.

Áætlun um greiðslu frestuðu 81 milljarðs króna iðgjaldanna auk vaxta rennur til mars ársins 2023. BA verður ekki heimilt að greiða út árið 2023 eftir að hafa náð samkomulagi um tveggja milljarða punda lán, sem breska ríkið hefur ábyrgst að hluta til. Frá árinu 2024, þarf að fylgja öllum arðreiðslum flugfélagsins framlög til Naps sem nema um 50% af arðgreiðslunum. 

Árið 2018 uppgötvaðist 2,4 milljarða punda gat á fjármögnun Naps. BA hefur greitt 1,34 milljarða punda í framlög til Naps síðan í mars 2018, þar á meðal 263 milljónir punda í fyrra. 

Stikkorð: BA British Airways Naps