Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar í Kópavog í gærkvöld að kaupa félagslegar íbúðir í bænum að verðmæti þriggja milljarða króna.

Gunnar I. Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, greiddi tillögunni atkvæði sitt ásamt fulltrúum minnihlutans í bæjarstjórn. Meirihlutinn greiddi atkvæði gegn tillögunni. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, sagði í samtali við mbl.is að það sé brjálæði að ákveða að eyða ríflega þremur milljörðum króna á einum fundi.

Minnihlutinn samanstendur af fulltrúum Samfylkingar, Vinstri grænna og Næstbesta flokksins, en meirihlutinn er skipaður fulltrúum Sjálfstæðisflokks, Y-lista og Framsóknarflokksins.