Samanlögð bein eign Brimgarða í hlutabréfum Eikar, að viðbættum beinum og ábeinum réttindum samkvæmt fjármálagerningum, er nú komin í 5,8%. Fjárfestingafélagið gerði nýlega framvirka kaupsamninga fyrir 4,5% hlut í Regin. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Brimgarðar verða fimmti stærsti hluthafi Regins miðað við 5,8% eignarhlutinn, verði allir framvirku samningarnir nýttir. Fjárfestingafélagið myndi eignast 105 milljónir hluti í Regin, að markaðsvirði 2,9 milljörðum króna. Brimgarðar náðu marki flöggunarskyldu á 5% hlut á þriðjudaginn síðasta en uppgjörsdagar framvirku samninganna eru á tímabilinu 13.-23. júlí næstkomandi. Brimgarðar voru fyrir viðskiptin með 1,2% beinan hlut í Regin og eru tuttuguasti stærsti hluthafi Regins miðað við núverandi hluthafalista.

Í byrjun maí síðasta var tilkynnt um sambærileg viðskipti Brimgarða á 14,1% hlut í fasteignafélaginu Eik. Samtala atkvæða af fyrri eignarhlut Brimgarða og framvirku samninganna nam 29,4%. Brimgarðar eru stærsti hluthafi Eikar með tæplega 15% hlut að markaðsvirði 5,7 milljörðum króna, samkvæmt hluthafalista dagsettum 30. júní síðasta. Auk Regins og Eik, eiga Brimgarðar einnig 1,3% hlut í Reitum fyrir 776 milljónir króna að markaðsvirði.

Langisjór ehf., móðurfélag Brimgarða, keypti Ölmu íbúðafélag fyrir 11 milljarða króna fyrr í ár. Á stjórnarfundi Ölmu þann 20. apríl var samþykkt tillaga um að félagið íbúðafélagið myndi kaupa allt hlutafé Brimgarða af Langasjó. Samhliða því var ákveðið að hækka hlutafé Ölmu um tvo milljarða króna að raunvirði.

Sjá einnig: Hagnaður Brimgarða nam 5,3 milljörðum

Langisjór er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra. Meðal fyrirtækja í samstæðu Langasjávar eru Mata hf., Matfugl ehf. og Síld og fiskur ehf.