Stóri bankar á evrusvæðinu þurfa að bæta eiginfjárstöðu sína um 400 milljarða evra til að koma eiginfjárhlutfalli þeirra í rétta stöðu og koma þeim á svipað ról og bankar eru í löndum í öðrum heimsálfum, að mati Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Fjárhæðin jafngildir um 4,25% af landsframleiðslu innan evrusvæðisins.

Bloomberg-fréttaveitan segir að með eiginfjáraukningu megi koma í veg fyrir að fall fjármálafyrirtækja lendi á herðum skattborgara með sambærilegum hætti og gerðist í fjárkreppunni.

Að mati OECD þurfa bankar á Grikklandi, Frakklandi og í Belgíu á hlutfallslega hæstu fjárhæðinni að halda eða sem nemur 6% af landsframleiðslu. Staða banka í öðrum löndum er nokkuð betri en OECD mælir með því að til banka í Portúgal, Austurríki og Spáni verði lagt til sem nemur 2% af landsframleiðslu viðkomandi landa.