Um átta til tíu ár í viðbót getur tekið að koma vanskilum í ásættanlegt horf. Þetta er mat Stefáns Björnssonar, sérfræðings í greiningum hjá Fjármálaeftirlitinu.

Stefán skrifar grein um vanskil eftir kreppuna hér í nýjasta eintaki Fjármála, vefriti Fjármálaeftirlitsins. Í greininni ber hann vanskil hér í kreppunni saman við þróun mála í Ungverjalandi og Asíukreppuna árið 1997 og fjárkreppuna í Austur-Evrópu árið 2008.

Önnur kreppa má ekki ríða yfir

Stefán segir m.a. að samanburður á þróun vanskila hér bendi til þess að árangur Íslands í skuldaúrvinnslu hafi ekki verið lakari en Tælands og Indónesíu og virðist vanskilahlutfallið vera að þróast eins og við mátti búast m.v. það áfall sem Ísland varð fyrir haustið 2008. Hann bendir þó á að hátindur vanskilahlutfallsins hjá Indónesíu og Tælandi hafi verið hærri en hér  og lækkun vanskilahlutfalls í þeim ríkjum  í kjölfarið hraðari, einkum þó í Indónesíu.

En svo segir Stefán:

„Ef miðað er við reynslu Indónesíu og Tælands gæti það tekið Ísland um 8-10 ár í viðbót að koma vanskilum í ásættanlegt horf, sem er hér skilgreint sem 2,5%, að því gefnu að annað fjármálaáfall ríði ekki yfir á tímabilinu og lækkunarhraði vanskilahlutfalls á  Íslandi verði svipaður og hjá Tælandi og Indónesíu.“

Rit FME