Bakkavör Group hefur keypt bandarískan matvælaframleiðanda, Two Chefs on a Roll,  sem framleiðir fersk og frosin tilbúin matvæli í Kaliforníu. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á kökum og eftirréttum, súpum og ídýfum fyrir bandarískan markað. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Í tilkynningu vegna kaupanna segir að Two Chefs on a Roll hafi verið stofnað af matreiðslumönnunum Lori Daniel and Eliot Swartz árið 1985 sem lítið heildsölufyrirtæki með eftirrétti. Í dag framleiðir fyrirtækið hins vegar fjölbreytt úrval ferskra og frosinna tilbúinna matvæla undir vörumerkjum viðskiptavina sinna og er með um 350 starfsmenn. Two Chefs on a Roll er staðsett í Carson, Los Angeles, en nýverið opnaði fyrirtækið einnig verksmiðju í Jessup  í Pennsylvaníu. Velta félagsins á nýliðnu ári var 2,4 milljarðar króna (38,6 milljónir bandaríkjadala).

Fyrirtækið verður hluti af Bakkavör Group frá kaupdegi. Kaupin á Two Chefs on a Roll, sem er fyrsta fjárfesting Bakkavarar í Bandaríkjunum, er langtímaverkefni sem mun krefjast talsverðra fjárfestinga á næstu misserum.

Ráðning forstjóra Bakkavör USA

Til að styðja við sókn félagsins inn á bandarískan markað hefur Bakkavör Groupstofnað nýtt dótturfélag, Bakkavör USA, og ráðið John Dutton sem forstjóra.John Dutton hefur yfirgripsmikla reynslu af rekstri framleiðslufyrirtækja ásviði ferskra tilbúinna matvæla eftir að hafa bæði byggt upp og stýrtm fjölmörgum fyrirtækjum í Bretlandi og á meginlandi Evrópu í yfir 25 ár. John Dutton starfaði m.a. sem framkvæmdastjóri hjá Geest PLC sem og sat í stjórn félagsins um 11 ára skeið, þar til hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki, Rannoch Foods,  árið 2002. Bakkavör Group keypti hluta Rannoch Foods á nýliðnu ári þegar félagið keypti Exotic Farm Produce.

Eftirspurn eftir ferskum tilbúnum matvælum eykst í Bandaríkjunum

Bandaríski markaðurinn fyrir fersk tilbúin matvæli er talinn vera yfir 1.240 milljarða króna (20 milljarða dala) virði og óx um 4,5% á milli ára. Áætlað er að þessi markaður muni vaxa að meðaltali um 7% á ári næstu árin og að árið 2012 muni virði hans nema yfir 1.800 milljörðum króna (28,5 milljörðum dala). Líkt og í Bretlandi leggja bandarískir neytendur í auknum mæli upp úr þægindum, hollustu og gæðum matvæla, gegn sanngjörnu verði. Í samræmi við þá þróun eykst eftirspurnin eftir ferskum tilbúnum matvælum hröðum skrefum í Bandaríkjunum.

Í tilkynningunni er haft eftir Ágústi Guðmundssyni forstjóra Bakkavarar: „Við erum stolt af því að kynna upphaf starfsemi Bakkavarar í Bandaríkjunum með kaupum á spennandi fyrirtæki á sviði tilbúinna matvæla, sem fellur vel að stefnu félagsins. Two Chefs on a Roll er vel rekið fyrirtæki með öflugan hóp stjórnenda. Við erum ánægð með að hafa fengið John Dutton aftur til liðs við okkur til að leiða uppbyggingu félagsins í Bandaríkjunum en hann hefur mikla þekkingu og reynslu af uppbyggingu og rekstri framleiðslufyrirtækja á þessu sviði í Evrópu.“