Hagnaður Bakkavör Group eftir skatta og fjármagnsliði var neikvæður um 8,1 milljón Sterlingspunda á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, samanborið við 12,8 milljónir punda á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í uppgjörs tilkynningu frá félaginu en EBITDA hagnaður félagsins nam 18,7 milljónum punda sem er 29% lækkun á milli ára. og gerir félagið ráð fyrir 15% hækkun milli ára eða um 125 milljónir punda.

Í tilkynningunni kemur fram að söluaukning á tímabilinu nemur alls 9% en söluaukning í undirliggjandi rekstri um 1%. Þá jókst velta félagsins um 9% á fyrsta ársfjórðungi og nam alls 410 milljónum punda.

Handbært fé frá rekstri fyrir skatta, vexti og einskiptiskostnað vegna hagræðingaraðgerða, nam á tímabilinu 1,3 milljón punda, samanborið við 6,4 milljónir punda á fyrsta ársfjórðungi 2008.

Sjá fram á bjartari tíma

„Við náðum góðri söluaukningu á fyrsta fjórðungi ársins miðað við núverandi efnahagsaðstæður, en aukninguna má einkum rekja til sveigjanleika í framleiðslu félagsins, aukningar markaðshlutdeildar í Bretlandi og aukningar í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum,“ segir Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavör Group í tilkynningunni.

„Þessi aukna sala sýnir vel styrk starfsemi okkar á samdráttartímum en við reiknum með að sala haldi áfram að aukast þrátt fyrir að hægist um í alþjóðahagkerfinu.“

Ágúst segir að félagið geri ráð fyrir því að fyrsti ársfjórðungur marki síðasta tímabil lækkunar á framlegð félagsins, „nú þegar áhrifa af hagræðingaraðgerðum í rekstri félagsins hættir að gæta og þess að aðgerðir okkar til að lágmarka áhrif verðhækkana á hráefni á reksturinn, auka hagkvæmni og hámarka nýtingu taki að skila bættri afkomu,“ segir Ágúst.

Þá kemur fram að félagið á enn í viðræðum við stærstu eigendur skuldabréfa Bakkavör Group hf., en stjórn félagsins er vongóð um að viðræðurnar muni skila árangri og að gjalddagi skuldabréfanna fáist framlengdur.