Bakkavör Group hefur gert bindandi kauptilboð í Geest plc. og hefur stjórn Geest mælt með að hluthafar taki tilboðinu. Með kaupunum verður Bakkavör Group leiðandi fyrirtæki í framleiðslu tilbúinna ferskra matvæla í Bretlandi. Yfirtökutilboðið hljóðar upp á 655 pens á hlut, auk þess sem greidd verða 7 pens á hlut í arðgreiðslu. Verðið sem greitt verður fyrir hlutina í Geest nemur því 497,3 milljónum punda (57,7 milljörðum króna).

Geest Plc., sem stofnað var árið 1935, er eitt stærsta framleiðslufyrirtæki Bretlands á sviði tilbúinna matvæla og rekur félagið 38 verksmiðjur í fimm löndum. Starfsmenn þess eru um tíu þúsund talsins. Geest hefur mjög sterka markaðsstöðu í Bretlandi en þar hefur félagið til dæmis 40% markaðshlutdeild í fersku salati og 35% markaðshlutdeild í ferskum pizzum.

Síðustu ár hefur rekstur Geest gengið vel. Hagnaður fyrir afskriftir á árinu 2004 nam 74,9 milljónum punda (8,7 milljörðum króna) og heildarvelta félagsins nam 902,5 milljónum punda (104,6 milljörðum króna). Undirliggjandi vöxtur í starfsemi Geest var 5% á árinu 2004. Ef hluthafar Geest samþykkja tilboð Bakkavör Group þá er heildarkaupverðið 579,6 milljónir punda (67,2 milljónir króna), þar af greiðir Bakkavör Group 497,3 milljónir punda (57,7 milljarða króna) fyrir hlutafé félagsins og yfirtekur skuldir að fjárhæð 82,3 milljónir punda (9,5 milljörðum króna). Frá árinu 1986 hefur félagið verið skráð í Kauphöllinni í Lundúnum en það mun verða afskráð í kjölfar yfirtökunnar.

Með kaupunum á Geest nær Bakkavör Group leiðandi stöðu í Bretlandi í framleiðslu tilbúinna ferskra matvæla. Félagið mun reka samtals 42 verksmiðjur í fimm löndum með um 13 þúsund starfsmenn. Bakkavör Group verður stærsti einstaki birgi stórmarkaða í Bretlandi fyrir tilbúnar ferskar matvörur og mun framleiða yfir 4.500 vörur í 16 vöruflokkum. Stjórnendur félagsins sjá margvísleg tækifæri með kaupunum á Geest. Unnt verður að samþætta starfsemi félaganna á ýmsum sviðum, svo sem í vöruþróun og sérhæfingu verksmiðja. Þá eru einnig tækifæri til að ná fram stærðarhagkvæmni, svo sem í innkaupum á hráefni og umbúðum. Kaupin á Geest munu jafnframt styðja sókn Bakkavör Group á nýja markaði í Evrópu og víðar. Samanlögð velta félaganna fyrir árið 2004 hefði numið um 1.052 milljónum punda (123 milljörðum króna) og samanlögð EBITDA hefði numið 99,7 milljónum punda (12 milljörðum króna).

Líkt og við fyrri yfirtökur munu stjórnendur Bakkavör Group leggja áherslu á að semja við helstu lykilstarfsmenn Geest um áframhaldandi störf. Bakkavör Group hefur þegar gert samning við Gareth Voyle forstjóra Geest um að starfa áfram hjá félaginu en með því móti er tryggt að verðmætri þekkingu og reynslu innan Geest sé viðhaldið.

Barclays banki og KB banki munu lána samtals 575 milljónir punda til kaupanna. Þar af fjármagnar Barclays 500 milljónir punda (58 milljarða króna) en það er stærsta einstaka lánveiting banka til íslensks fyrirtækis. Áreiðanleikakönnunum er lokið, en þær náðu til fjármála, lagalegra, tryggingalegra og markaðslegra þátta í rekstri félagana. Þá hafa helstu hluthafar Bakkavör Group þegar lýst yfir stuðningi sínum við tilboðið.

Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavör Group.

?Þessi kaup eru í samræmi við stefnu okkar um að vaxa ört með innri sem ytri vexti en viðhalda um leið stöðu félagsins sem eins af best reknu fyrirtækjum á sínu sviði í Evrópu. Með kaupunum á Geest getum við nýtt okkur samanlagðan styrk, annars vegar með því að nýta viðskiptasambönd hvors annars og hins vegar með því að efla ennfrekar þjónustu okkar við viðskiptavini og vöruþróun. Geest hefur sýnt jafnan og góðan vöxt á undanförnum árum og með því náð traustri stöðu í framleiðslu ferskra tilbúinna matvæla. Ég tel að með þessu myndist ýmis tækifæri fyrir félögin, hvort heldur sem er í Bretlandi eða utan þess."

Ráðgjafi Bakkavör Group við kaupin er KB banki. Aðrir helstu ráðgjafar Bakkavör Group við kaupin voru Deloitte sem önnuðust fjárhagslegar áreiðanleikakannanir og Eversheds sá um lögfræðilega áreiðanleikakönnun og skjalagerð.

Í ljósi þess að stjórn Geest hefur samþykkt að mæla með kauptilboði Bakkavör Group, verður hluthafafundur boðaður hjá Geest þann 21. apríl. Þar verður tilboðið borið undir atkvæði. Verði tilboðið samþykkt mun samruninn taka gildi þann 13. maí og mun greiðsla fyrir hlutina fara fram þann 27. maí.

Bakkavör Group mun kynna nýjar áherslur í rekstri félagsins og framtíðarsýn í byrjun júní.