Stjórnarformaður US Aerospce Associates LLC, Michele Ballarin, greiddi 50 milljónir króna fyrir eignirnar sem hún keypti úr þrotabúi WOW air. Inn í því eru fjólubláu búningarnir, margvíslegar rekstrarvörur, varahlutir, bókunartækni og handbækur. Þetta kemur fram í frétt Vísis .

Þegar Vísir heyrði í Þorsteini Einarssyni, sem er annar skiptastjóri WOW air, vildi hann ekki tjá sig um upphæðina en staðfesti þó að Ballarin væri búin að standa við sinn hluta kaupsamningsins fyrir eignirnar úr þrotabúinu. Alls bárust 5.964 kröfur í þrotabú WOW air fyrir 138 milljarða króna en kröfulýsingarfrestur rann út 3. ágúst síðastliðinn. Ekki var tekið tillit til almennra krafna vegna þess hversu háar forgangskröfur á borð við launakröfur frá starfsmönnum félagsins numu.

Félagið stefnir enn á sitt fyrsta flug í næsta mánuði þrátt fyrir að ekki sé komið á hreint hvenær vefsíðan verði sett af stað. Ballarin sagði prófanir gengið áfallalaust fyrir sig. Hins vegar hefur hið nýja flugfélag ekki enn fengið flugrekstrarleyfi, hvorki í Bandaríkjunum né á Íslandi. Í þokkabót hafa talsmenn Isavia og Dulles-flugvallar sagt að WOW air hafi ekki enn orðið sér úti um lendingartíma fyrir jómfrúarflugið og ríkir því enn mikil óvissa í kringum ásett flug.