Steve Ballmer, framkvæmdastjóri Microsoft, sagði í gær ekkert hæft í þeim sögusögnum að Microsoft hafi enn áhuga á að kaupa Yahoo. Gengi bréfa Yahoo hrapaði um 14% í kjölfar ummæla Ballmer.

Ballmer sagði að eftir að hafa gert fjölda tilboða í Yahoo, auk þess að reyna að semja um samstarf við félagið, hafi Microsoft ekki áhuga á frekari viðræðum.

Þessi ummæli Ballmer koma aðeins tveimur dögum eftir að framkvæmdastjóri Yahoo, Jerry Yang, sagðist trúa því að Yahoo væri enn besti kosturinn í stöðunni fyrir Microsoft til að herja á forskot Google á leitarvélamarkaðnum.

Bréf Yahoo höfðu framan af viku hækkað mikið vegna orðróms um að Microsoft væri að undirbúa enn eitt tilboðið í félagið.

Reuters greindi frá.