Ban Ki-moon
Ban Ki-moon
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, hvetur stjórnendur fyrirtækja til að skrifa undir Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Alls eru 6.200 fyrirtæki aðilar að sáttmálanum í 130 löndum. Markmið Sameinuðu þjóðanna er að 20 þúsund fyrirtæki hafi skrifað undir sáttmálann árið 2020 með það að markmiði að auka sjálfbærni efnahagslífs heimsins. Tengiliður á Íslandi við Global Compact eru Samtök atvinnulífsins og kemur þetta fram á vef þeirra.

Verkefnið hófst í júlí árið 2000 og er um að ræða tíu viðmið sem fyrirtæki setja sér að fara eftir. Mörg af öflugustu fyrirtækjum Norðurlanda hafa skrifað undir sáttmálann sem og mörg lítil og meðalstór fyrirtæki. Á Íslandi hafa sjö aðilar skrifað undir Global Compact.

Viðmiðin eru eftirfarandi:

  1. Fyrirtæki styðja og virða vernd alþjóðlegra mannréttinda.
  2. Fyrirtæki fullvissa sig um að þau gerist ekki meðsek um mannréttindabrot.
  3. Fyrirtæki styðja við félagafrelsi og viðurkenna í raun rétt til kjarasamninga.
  4. Fyrirtæki tryggja afnám allrar nauðungar- og þrælkunarvinnu.
  5. Virkt afnám allrar barnavinnu er tryggt.
  6. Fyrirtæki styðja afnám misréttis til vinnu og starfsvals.
  7. Fyrirtæki styðja beitingu varúðarreglu í umhverfismálum.
  8. Fyrirtæki hafi frumkvæði að því að hvetja til aukinnar ábyrgðar gagnvart umhverfinu.
  9. Fyrirtæki hvetji til þróunar og nýtingar á umhverfisvænni tækni.
  10. Fyrirtæki vinni gegn hvers kyns spillingu, þar með talið kúgun og mútum.