Atvinnuleysi í Bandaríkjunum hefur nú náð fimm ára hámarki en skráðum atvinnulausum fjölgaði um 84 þúsund í síðasta mánuði sem er nokkuð meira en gert hafði verið ráð fyrir að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Atvinnuleysi vestanhafs mælist nú 6,1% og hefur ekki verið hærra frá því í desember árið 2003.

Þegar hafði verið gert ráð fyrir að nýr fjöldi skráðra atvinnulausra yrði um 75 þúsund manns í ágúst.

Atvinnuleysi hefur að sögn Bloomberg aukist í öllum geirum en verst þó í framleiðslu þar sem um 61 þúsund manns misstu vinnuna í síðasta mánuði.

Sumarið kom verr út en gert hafði verið ráð fyrir en um 100 þúsund manns misstu vinnuna í júní á meðan 60 þúsund manns misstu vinnuna í júlí.

Þetta er töluvert meira en gert hafði verið ráð fyrir en greiningaraðilar höfðu þegar gert ráð fyrir að rúmlega 50 þúsund störf myndu tapast í hvorum mánuði og var það í takt við spá vinnumálastofnunar Bandaríkjanna.

Atvinnuleysi hefur nú aukist átta mánuði í röð í Bandaríkjunum.