Eftir þriggja ára samfellt verðfall virðist fasteignaverð í Bandaríkjunum nú vera að ná jafnvægi og vera að rétta sig af þó hægt fari. Það er einkum lágt fasteignaverð og lágir vextir sem virðast vera að draga fasteignakaupendur að borðinu að nýju, samkvæmt úttekt Global Property Guide.

Þá hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar m.a. varðandi skatta- og vaxtaafslátt verið að leiða til aukinnar eftirspurnar. Það er einkum hjá þeim sem eru að kaupa í fyrsta sinn sem hafa verið að fá 7.500 dollara vaxtalaus lán til 15 ára. Á þéttbýlissvæðum er markaðurinn þó enn um 17% undir ársmeðaltali.

Fasteignamarkaðurinn í Bandaríkjunum byrjaði að rétta sig af í maí um 0,4% frá fyrra mánuði og er þá miðað við SPCS -10 vísitölu S&P/Chase-Shiller. SPCS-20 vísitalan bendir þó til 0,5% hækkunar á markaðnum. Samkvæmt yfirliti Federal Housing Enterprise Oversight (OFHEO) samsvaraði viðsnúningurinn 0,9% milli mánaða.

Þó sum svæði í Bandaríkjunum sýni bata sem geri meðaltalið jákvætt, þá hefur verðfall aukist á þessu ári á öðrum svæðum. Þannig féll fasteignaverð í Phonix í Arizona um 34,2% frá maí 2008 til maí 2009. Fylgir það í kjölfar 26,5% lækkunar á tólf mánaða tímabili þar á undan. Í Las Vegast hrapaði verðið um 32% á milli ára, um 26,1% í San Francisco og 25,1% á Miami.

Fleiri borgir voru með mikið verðfall milli ára eins og Detroit með -24,5%, Minneappolis með -21,7%, Tampa með -20,8%, Los Angeles með -19,8%, San Diego með -18,5% og Cicago með -17,5%.

Í heild eru menn þó að gera sér vonir um að botninum sé náð og að inngrip stjórnvalda með markvissum stuðningi við fasteignakaupendur dugi til að snúa dæminu við í alvöru.