Sala General Motors í Bandaríkjunum jókst óvænt um 2,6% í janúar en japanskir og aðrir bandarískir keppinautar þurftu að þola samdrátt, að því er segir í frétt Reuters. Nýr Chevrolet Malibu hefur hjálpað sölunni hjá GM.

Sala hjá Toyota dróst saman um 2,3%. Sala á Camry, sem er mest seldi Toyota-bíllinn í Bandaríkjunum, var óbreytt, en sala á Prius tvinnbílnum jókst um 37%.

Ford tilkynnti í dag um 3,6% samdrátt í sölu og sala Chrysler féll um 12%. Chrysler minnkaði mikið sölu til bílaleiga, auk þess sem pallbílar og jeppar seldust minna en áður. Þá dróst sala Nissan saman um 7,3%.

Búist hafði verið við minnkandi sölu í janúar, sem er almennt veikur mánuður í sölu, en tölur voru þó almennt verri en gert hafði verið ráð fyrir.