Betur fór en á horfðist með efnahagskerfi Bandaríkjanna fyrstu mánuði þessa árs að því er Bloomberg fréttaveitan greinir frá í dag.

Hagvöxtur á ársgrundvelli jókst um 0,9% á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt tölum sem viðskiptaráðuneytið í Bandaríkjunum birti í dag en þegar hafði verið gert ráð fyrir 0,6% hagvexti. Þá hafa pantanir á varanlegum neysluvörum aukist óvænt eins og greint var frá í gær.

Skilgreiningin á samdrætti felst í því að hagvöxtur á ársgrundvelli sé neikvæður tvo ársfjórðunga í röð samkvæmt Bloomberg en svo er ekki með síðustu tvo ársfjórðunga vestanhafs. Hagvöxtur á ársgrundvelli var 0,6% síðasta ársfjórðungi 2007.

„Þetta eru jákvæðar tölur,“ segir Nick Bennenbroek, sérfræðingur hjá Wells Fargo í viðtali við fréttavef BBC.

„Auðvitað er 0,9% aukning ekki mikil – en í janúar var útlitið ekkert sérstaklega gott.“

Greiningaraðilar gera ráð fyrir að hagvöxtur á ársgrundvelli aukist um 0,4% á öðrum ársfjórðung og þá er búist við 2,2% aukningu á þriðja ársfjórðung.