Hagvöxtur í Bandaríkjunum jókst um 0,6% á fyrsta ársfjórðung

Það er meiri hagvöxtur en gert hafði verið ráð fyrir að sögn Bloomberg fréttaveitunnar en fyrirfram var búist við 0,2% hagvexti.

Neysla í Bandaríkjunum jókst þó aðeins um 1% á ársfjórðungnum og hefur Bloomberg eftir viðmælanda að það sé áhyggjuefni enda hefur neysla ekki aukist jafn hægt á einum ársfjórðung frá árinu 2001.

Auknar vörubirgðir fyrirtækja „bæta upp“ litla aukningu í neyslu að sögn Bloomberg.

„Við teljum að það sé samdráttur en samt sem áður eykst þjóðarframleiðsla,“ segir Mark Vitner, yfirhagfræðingur hjá Wachovia bankanum. „Ef birgðastaða fyrirtækja væri ekki tekin með í reikninginn myndi þjóðarframleiðsla minnka.“

Í kvöld kynnir bandaríski seðlabankinn stýrivaxtaákvörðun sína og telja greiningaraðilar vestanhafs að stýrivextir, sem nú eru 2,25% verði lækkaðir í 2%.