*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Erlent 29. mars 2021 17:06

Bandaríkin hóta Bretum með tollum

Ýmsar breskar vörur gætu verið tolllagðar í Bandaríkjunum. Svar Bandaríkjanna við fyrirhugaðri skattlagningu Breta á tæknifyrirtæki.

Ritstjórn
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
epa

Bandarísk yfirvöld hafa hótað því að setja allt að 25% tolla á hinar ýmsu bresku vörur sem fluttar eru inn til Bandaríkjanna. Er þessi hótun svar Bandarískra yfirvalda við áætlunum breskra yfirvalda sem snúast um aukna skattlagningu á hendur tæknifyrirtækja. BBC greinir frá.

Breskar vörur líkt og snyrtivörur, yfirhafnir, tölvuleikjastýripinnar og húsgögn gætu orðið fyrir barðinu á umræddum tollum, að því er kemur fram á lista sem bandarísk stjórnvöld hafa gefið út.

Áætla bandarísk stjórnvöld að með þessum tollum safnist saman um 325 milljónir dala, sem er einmitt sú upphæð sem stjórnvöld áætla að muni renna í vasa Breta frá bandarískum tæknifyrirtækjum.

Bresk yfirvöld hafa látið hafa eftir sér að þau vilji gæta þess að tæknifyrirtæki greiði sinn skerf í skatta á Bretlandi. Haldi Bandaríkjamenn þessum tollum til streitu neyðist Bretar til að skoða alla möguleika til þess að verja hagsmuni sína og þeirra geira sem munu verða tolllagðir.

Stikkorð: Bandaríkin Bretland tollar Bandaríkin