Hlutabréf í Bandaríkjunum hækkuðu hressilega í dag, en velflestir markaðir um allan heim lokuðu iðagrænir í viðskiptum dagsins. Svo virðist sem ákvörðun bandarískra stjórnvalda að þjóðnýta húsnæðislánasjóðina Fannie Mae og Freddie Mac leggist vel í markaðinn, og komi auknum stöðugleika á alþjóðafjármálakerfið sem hefur þurft að afskrifa 507 milljarða dollara vegna undirmálalánakrísunnar. Bloomberg segir frá þessu í kvöld.

S&P-500 hækkaði um 2,1%, Dow Jones um 2,6% og Nasdaq hækkaði lítillega.

Fjármálafyrirtæki leiddu hækkanir dagsins, en Citigroup og Wachovia bættu við sig 6,6% eftir að fjármálaráðherra Bandaríkjanna skýrði frá því að skammtímalánsfjármagn yrði útvegað fyrir Fannie Mae og Freddie Mac.