Hlutabréf lækkuðu í Bandaríkjunum í dag, fimmta viðskiptadaginn í röð. Lækkunin varð þó ekki jafn mikil eins og byrjun dagsins gaf til kynna.

Nasdaq lækkaði um 2,04%, Dow Jones um 1,05% og S&P 500 lækkaði um 1,11%. Strax við opnun markaða lækkaði Nasdaq um rúmlega 4% en vann sig upp það sem eftir lifði dags þó að engin vísitala hafi farið yfir núllið og sýnt rauðar tölur í dag.

Stýrivaxtalækkun bandaríska seðlabankans hafði nokkur áhrif á markaði en hafði þó ekki þau áhrif sem búist hafði verið við að mati bæði Bloomberg fréttaveitunnar og Wall Street Journal. Eins og fyrr hefur verið greint frá lækkaði Seðlabankinn stýrivexti um 75 stig og eru stýrivextir eftir lækkunina nú 3,5%.

Fimm hlutabréf lækkuðu fyrir hver fjögur sem hækkuðu í dag.

Viðmælandi Bloomberg segir í kjölfar þess að markaðir hafi ekkert hækkað í dag að ástand efnahagsmála sé verri en gert hafði verið ráð fyrir. „Þetta mun líklega ýta við þeim sem hingað til hafa talið að aðeins væri um tímabundna erfiðleika að ræða,” sagði hann.

Áhyggur af hjöðnun markaða í Bandaríkjunum hefur smitað út frá sér til Evrópu og Asíu þar sem markaðir hafa lækkað töluvert síðustu tvo daga.

Olía lækkar áfram

Verð á hráolíu lækkaði í dag um 72 cent og í lok dags kostaði tunnan 89,85 bandaríkjadali. Olíuverð hefur ekki verið jafn lágt í sex vikur.

Í byrjun febrúar munu OPEC samtökin ákveða hvort olíuframleiðsla verður aukin eða ekki en væntingar til aukinnar framleiðslu hefur haft áhrif á lækkandi olíuverð.