Opinberir stefnumótunaraðilar í Bandaríkjunum vinna nú að því að setja saman lagafrumvarp sem mun herða reglur á fasteignalánamarkaði.

Um þessar mundir ganga Bandaríkjamenn í gegnum eitt þrengsta tímabil á húsnæðislánamarkaði og er hann að mörgu leyti orsökin fyrir núverandi fjármálaniðursveiflu í heiminum.

Þetta vilja menn koma í veg fyrir að gerist aftur og því stendur til að herða reglur um lán, lánakjör, innheimtu, ábyrgðir og fleira.

Vilja einfaldan og skilvirkan markað

Hank Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna sagði við fjölmiðla í gær að stefnt yrði að því með nýjum reglugerðum að gera markaðinn stöðugri og hnitmiðari.

Í lok janúar skipaði George W. Bush , bandaríkjaforseti vinnuhóp til að leggja drög að tillögum til þessa en Paulson leiðir þann hóp.

Þá segir Paulson að allt kapp verði lagt á að einfalda markaðinn ekki flækja hann með nýjum reglum. „Reglugerðir þurfa að vera í takt við raunveruleikann og hjálpa til að við að auka tiltrú manna á fjárfestingu en ekki að skapa ný vandamál, hefta markaði eða koma í veg fyrir að þeir sem þurfi lán geti fengið þau,“ sagði Paulson en þetta kemur fram á vef BBC.