Viðskiptahalli jókst óvænt í Bandaríkjunum í október, þrátt fyrir lækkun á olíuverði.

Hallinn nam 57,2 milljörðum dollara sem er 1,1% aukning frá því í september. Þrátt fyrir að olíutunnan hafi lækkað mikið í verði á þessum tíma, var mikil aukning í eftirspurn á olíu sem jók á verðmæti innflutningsins.

Bæði inn- og útflutningur lækkaði þriðja mánuðinn í röð vegna minnkandi eftirspurnar í heimsbúskapnum.

,,Það sem við vorum hrædd við er nú orðið staðreynd. Samdrátturinn í heimsbúskapnum er farinn að verða sýnilegur í utanríkisviðskiptum Bandaríkjanna, sem var eitt af lykilatriðum uppsveiflu síðustu ára," segir David Resler, sérfræðingur hjá verðbréfafyrirtæki í New York. ,,Ég held að viðskiptahallinn muni á endanum minnka, vegna þess að ég tel að innflutningur muni skreppa meira saman en útflutningur," segir hann.

Fleiri merki er nú um aukinn samdrátt í Bandaríkjunum en vikulegar tölur frá Vinnumálastofnun þar í landi benda til þess að atvinnulausum hafi fjölgað um 58.000 einstaklinga fyrstu vikuna í desember. Atvinnuleysi hefur ekki aukist hraðar frá því í nóvember 1982.

Þá er gert ráð fyrir miklum halla á ríkisbúskapnum þar vestra á þessu ári.