*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Erlent 10. janúar 2017 17:20

Bandaríkjamenn bjartsýnir

Bandarískir neytendur og fyrirtækjaeigendur hafa ekki verið jafn bjartsýnir í 12 ár.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Eigendur smárra og meðalstórra fyrirtækja í Bandaríkjunum hafa ekki verið jafn bjartsýnir í 12 ár. Þetta er niðurstaða könnunar sem unnin var af National Federation of Independent Businesses.

Bjartsýnin hefur aukist mikið milli mánaða og hefur ekki aukist jafn skart í nær 37 ár, eða frá því í júlí 1980. Vísitalan sem mælir bjartsýnina fór þá úr 98,4 stigum í desember, í 105,8 stig í janúar.

Bjartsýnin byggist trúlega á væntingum til ríkisstjórnar Donald Trumps. Fyrirtækjaeigendurnir virðast til að mynda vænta meiri hagsældar, lægri skatta og bætts rekstrarumhverfis.

Fyrirtækjaeigendur eru þó ekki þeir einu sem trúa og treysta á bjartari tíma, heldur virðast bandarískir neytendur einnig vera það. Kannanir sem birtar voru í desember sýndu fram á að neytendur vestanhafs væru ekki búnir að vera jafn bjartsýnir í nær 15 ár.

Þó flestir taki þessum tíðindum fagnandi, óttast margir fræðimenn að bjartsýnin sé ekki á rökum reyst og geti því valdið talsverðum vonbrigðum ef illa árar á kjörtímabilinu.