Bandarísk stjórnvöld vinna nú að áætlun um að kaupa eignarhlut í fjármálastofnunum ef þörf verður á, til að minnka óróa á markaði.

Reuters fréttastofan hefur eftir Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, að nýja áætlunin eigi að hvetja einkaaðila til að leggja aukið fjármagn í fjármálastofnanir.

„Eignarhlutir stjórnvalda í fyrirtækjunum myndu ekki veita atkvæðisrétt,“ sagði Paulson. Hann sagði einnig að seðlabankar og fjármálaráðherrar G7 ríkjanna hefðu lokið við gerð áætlunar til að laga ástandið á mörkuðum. Mikið samstarf muni verða milli G7-ríkjanna í aðgerðum gegn fjármálakreppunni.

G7 ríkin eru Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Japan, Bretland og Bandaríkin.

Reuters greindi frá.