Lögmannafélag Flórída hefur ákveðið að senda sendinefnd lögfræðinga til Havana til að kanna hver séu helstu viðskiptatækifæri fyrir bandarísk fyrirtæki á Kúbu. Barack Obama bandaríkjaforseti tilkynnti í desember síðastliðnum að til stæði að liðka fyrir samskiptum þjóðanna, með því að létta á viðskiptaþvingunum og koma á auknum pólitískum samskiptum. Diplómatískum samskiptum á milli Bandaríkjanna og Kúbu var slitið fyrir 54 árum síðan, en þau verða endurvakin samkvæmt bandaríkjaforseta.

Forvitin um lög á Kúbu

„Þetta eru spennandi tímar," er haft eftir Pedro Freyre, sem er bandarískur lögfræðingur af kúbönskum ættum. Hann er forstöðumaður alþjóðadeildar Akerman lögmannsstofunnar á Flórída. „Bandarískir viðskiptavinir okkar, sem eru sumir hverjir á Forbes 100 listanum, vilja vita hvort útlendingar megi kaupa land á Kúbu. Þeir vilja vita hvernig veitu- og raforkukerfin eru og hvaða reglur gilda um vinnuafl," segir Freyre.

Vegna þessa hafa lögmannsstofur í Miami byrjað að bjóða aukna þjónustu hvað Kúbu snertir, en áhugi bandarískra fjárfesta og fyrirtækja á landinu virðist hafa aukist mikið undanfarna mánuði. Raul Castro, forseti Kúbu, hefur þó tekið af öll tvímæli um hvort efnahagsstefnu Kúbu verði breytt, en hann hefur sagt að Kúba verði áfram kommúnistaríki.

Nánar er fjallað um málið á vef Reuters.