Dow Jones-vísitalan í kauphöllinni í New York hefur hækkað um 2,23% síðan markaðir opnuðu þar ytra fyrir stundu. Þá hefur S&P 500-vísitalan einnig hækkað, eða sem nemur 2,39%.

Hlutabréfamarkaðir virðast vera að hrista af sér lækkun gærdagsins, en vísitölur í Evrópu hafa einnig farið hækkandi það sem af er degi. Í gær lækkuðu allar helstu vísitölur heimsins vegna vaxandi ótta um ástandið í Kína.

Kínverski seðlabankinn tilkynnti hins vegar fyrr í dag að bankinn myndi lækka stýrivexti um 0,25 prósentur sem virðist hafa farið vel í markaðsaðila. Gengi evrópskra hlutabréfa hækkaði við tíðindin og nú virðist hið sama vera uppi á teningnum í Bandaríkjunum.