Bandarísk stjórnvöld telja að bankakreppan sé mun umfangsmeiri en upphaflega var talið og hafa því undirbúið annað skref í björgunaraðgerðum sínum. Það felur í sér að hreinsa út slæmar eignir sem eru að lama fjármálakerfið, að því er segir í WSJ.

Embættismenn í fjármálaráðuneytinu, Seðlabankanum og Innistæðutryggingasjóðnum, í samráði við væntanlega stjórn Obama, eru að ræða áform um að stofna ríkisbanka sem mundi kaupa upp slæmu fjárfestingarnar og lánin sem eru að baki þeim risavöxnum töpum sem bankar í bandaríkjunum hafa tilkynnt um. Þá er í skoðun að veita risavaxna viðbótarábyrgð ríkisins vegna eigna banka.

Aðgerðirnar halda ekki í við eignatjónið

Fram hefur komið í þessum viðræðum að eignir bankanna séu að spillast hraðar en björgunaraðgerðir stjórnvalda hafi komið til. Bankar eigi nú ekki aðeins í vandræðum með fjárfestingar tengdar fasteignum, sem hafi komið kreppunni af stað, heldur einnig bílalán, greiðslukortaskuldir og önnur neyslulán.

WSJ hefur eftir stjórnarformanni Innistæðutryggingasjóðsins, Sheila Bair, að allar þessar hugmyndir miði að því að laða aukið fjármagn einkaaðila að bankakerfinu og auka útlán í hagkerfinu. „Það er nauðsynlegt að fá fjármagn frá einkaaðilum aftur inn í bankana,“ hefur WSJ eftir Bair.

Aðeins helmingur útlánatapsins kominn fram

Samkvæmt mati hagfræðinga hjá Goldman Sachs munu fjármálafyrirtæki og fjárfestar á endanum tapa 2.000 milljörðum dala á bandarískum útlánum. Tapið sem þegar hafi komið fram nemi aðeins helmingi þeirrar fjárhæðar.