*

fimmtudagur, 21. október 2021
Erlent 26. febrúar 2021 07:02

Bandarískur vínrisi stefnir á markað

Duckhorn Wine Company samsteypan, sem er með tíu vínhús undir sínum hatti, stefnir á skráningu í Kauphöllina í New York.

Ritstjórn
Facebook

Vínframleiðandinn Duckhorn Wine Company sem er með höfuðstöðvar á helsta víngerðarsvæði Bandaríkjanna, Napa Valley í Kaliforníu, stefnir á skráningu á markað vestanhafs. Fyrirtækið hefur þegar gert Verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna (SEC) viðvart um þetta. Undir hatti Duckhorn eru, auk samnefnds vínhúss, vínhúsin Paraduxx, Goldeneye, Migration, Decoy, Canvasback og Calera, Kosta Browne, Greenwing og Postmark. Vínmiðillinn Wine Spectator greinir frá þessu.

Duckhorn vínhúsið var sett á fót árið 1976 en frá árinu 2016 hefur það verið í eigu eignastýringafyrirtækisins TSG Consumer Partners, sem er með aðsetur í San Francisco. Andvirði eigna sem félagið er með í stýringu nemur alls um 9 milljörðum dala. Hefur Kauphöllin í New York tekið frá táknið (e. ticker) NAPA fyrir félagið.

„Þetta er skref í átt að hugsanlegri skráningu félagsins. Þetta breytir engu um þá stefnu okkar að framleiða og bjóða neytendum upp á vín í heimsklassa," er haft eftir Carol Reber, markaðsstjóra Duckhorn í frétt Wine Spectator. Hún neitaði að tjá sig frekar um málið og vísaði til reglna verðbréfaeftirlitsins um þagnarskyldu (e. quiet period) á meðan unnið er að undirbúningi frumútboðs.

Duckhorn Wine Company samsteypan, sem seldi rúmlega 1,4 milljónir kassa af víni í fyrra, hagnaðist um 32,4 milljónir dala á síðasta ári og námu tekjur samsteypunnar 270,6 milljónum dala á tímabilinu. Frá því að TSG festi kaup á félaginu fyrir fimm árum, á um 600 milljónir dala, hefur vöxtur þess verið hraður. Til samanburðar hagnaðist félagið um 9,6 milljónir dala árið 2015 og námu tekjur þess 117,5 milljónum dala það ár.

Stikkorð: vín kauphöll skráning Duckhorn