Staða markaðsskuldabréfa í lok október nam tæpum 1.798,6 milljörðum króna og lækkaði þannig um rúman 54 milljarða á milli mánaða. Í upphafi þessa árs nam staða markaðsverðbréfa um 1.557 milljörðum króna og hefur því hækkað um rúma 240 milljarða frá áramótum.

Þá hefur staða markaðsskuldabréfa hækkað um rúma 286 milljarða á milli ára að því er fram kemur í hagtölum Seðlabankans. Þar er birt yfirlit yfir markaðshæf skuldabréf sem gefin eru út í Kauphöllinni.

Lækkunin í október útskýrist að mestu vegna mikillar lækkunar á banka- og sparisjóðabréfum, sem lækkuðu um 54,5 milljarða í mánuðinum. Þannig nam staða þeirra aðeins um 7,9 milljörðum króna í lok október og hefur ekki verið lægri frá því að byrjað var að taka stöðu markaðsskuldabréfa saman árið 1990.

Á móti kemur að staða verðtryggðra ríkisbréfa hækkaði um tæpa 3,9 milljarða í október og hefur þá hækkað um rúma 45,7 milljarða króna frá áramótum. Staða óverðtryggðra ríkisbréfa breyttist lítið á milli mánaða en hefur hækkað um 247,5 milljarða frá áramótum, mest allra skuldabréfa.

Þá hækkaði gengi erlendra skuldabréfa um rúmar 580 milljónir króna og hafa hefur þannig hækkað um rúma 57 milljarða frá áramótum.

Ríkisvíxlar lækka en hlutabréf hækka

Markaðsvíxlar lækkuðu um 8 milljarða króna í október og eru þá á svipuðu róli og þeir voru í ágúst sl. Staða þeirra var í lok mánaðarins tæpir 73,7 milljarðar króna og hefur lækkað um rúma 12 milljarða frá áramótum. Nær alla lækkunina má rekja til lækkunar ríkisvíxla.

Skráð hlutabréf í Kauphöllinni hækkuðu um tæpa 12 milljarða króna á milli mánaða í október og nam staða þeirra í lok mánaðarins rúmum 246 milljörðum króna. Skráð hlutabréf  hafa þá hækkað um rúma 46 milljarða á milli ára.

Til frekar upplýsinga þá hefur virði skráðra bréfa á aðallista Kauphallarinnar hækkað um 40,3 milljarða á milli ára á meðan virði bréfa á First North markaðnum hefur hækkað um 6,2 milljarða á milli ára.