Úttektarfár hefur gripið um sig á meðal viðskiptaivina sænska bankans Swedbank í Lettlandi samkvæmt frétt á vef Aftonbladet. Þar segir að á föstudag hafi orðrómur komist á kreik þess efnis að bankinn væri að komast í greiðsluþrot og innlán myndi þar af leiðandi glatast. Það var eins og við manninn mælt að áhyggjufullir Lettar flykktust út í hraðbanka til þess að taka peningana sína út. Bankaáhlaupið var hafið.

Viðmælandi Aftonbladet segir langar biðraðir við alla hraðbanka Swedbank en bankinn er stærsti leikandi á bankamarkaði í Lettlandi með um 25% markaðshlutdeild. Blaðið hefur eftir upplýsingafulltrúa bankans að ekki sé ljóst hvaðan orðrómurinn sé kominn eða hvers vegna en fulltrúar bankans í Lettlandi reyni sitt besta til þess að fullvissa innlánseigendur um að peningar þeirra séu óhultir.

swedbank
swedbank
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)