Franski bankamaðurinn Jeróme Kerviel, fyrrum starfsmaður Société Générale, verður látinn laus úr fangelsi á mánudag eftir að hafa dúsað í 110 daga í fangelsi. Financial Times greinir frá þessu.

Dav­id Koubbi, lögfræðingur Kerviel, tilkynnti fjölmiðlum um þennan úrskurð áfrýjunardómstóls í París í dag en Kerviel hafði verið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir brot sín.

Kerviel þarf að ganga með ökklaband en fer aftur í fangelsi brjóti hann skilorðið. Hann þarf að auki að vera heima hjá sér milli 22 á kvöldin og 7 að morgni. .

Kerviel var sakfelldur fyrir að kosta Société Générale fimm milljarða evra með heimildarlausum viðskiptum þegar hann vann hjá bankanum. Hann faldi slóð sína og falsaði bókhaldið en hélt því engu að síður fram að yfirmenn bankans hafi vitað um viðskipti sín.