Ari Skúlason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) lýsir því í SSF-blaðinu sem kom út í dag að andrúmsloftið í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA), sem lauk í síðasta mánuði, hafi verið slæmt. Hann segir ljóst að SSF komi sameinað og að fullum krafti inn í næstu samningaviðræður.

„Það er niðurstaða samninganefndar SSF að í þessum viðræðum hafi orðið endir á hefðbundnum vinsamlegum samskiptum aðila við gerð kjarasamninga. Það er líka niðurstaða okkar að bankarnir muni ekki hreyfast og breyta um afstöðu nema undir verulegum þrýstingi, t.d. verkfallsboðun.“

SSF og SA skrifuðu undir nýjan kjarasamning þann 23. janúar. Samningurinn felur í sér er 6,75% launahækkun afturvirkt frá 1. nóvember síðastliðnum með 66 þúsund króna hámarki ásamt því að launatengdir liðir hækka um 5%.

Um 82% félagsmanna SSF tóku þátt í atkvæðagreiðslu um samninginn. Um 53,5% sem tóku þátt greiddu atkvæði með samningnum en 43,3% kusu gegn honum. Ari segir algerlega ljóst að þeir sem samþykktu samninginn gerðu það ekki með gleði í hjarta.

„Eftir frábæra þátttöku í atkvæðagreiðslu og kynningum er samninganefnd SSF heldur ekki í vafa um að félagsmenn SSF eru baráttuglaðir og séu til í átök ef svo ber undir. Það er því nokkuð ljóst að SSF mun ganga sameinað og af fullum krafti til næstu samningaviðræðna.“

Engar vöfflur bakaðar

Ari segir að SSF hafi í haust reynt að fá bankana til viðræna um ákveðin innri málefni áður en til hefðbundinna samningaviðræðna kæmi. Samninganefnd SSF fékk aldrei svar við þeim beiðnum fyrr en að lokum barst svar frá Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) þess efnis að SA myndi leiða kjaraviðræður.

„Í ljósi fálætis og áhugaleysis bankanna ákvað stjórn SSF að vísa málinu strax til Sáttasemjara,“ segir Ari og bætir við að samningaviðræðurnar hafi verið mjög erfiðar. Sáttaviðleitni gagnaðilans hafi verið engin.

SSF lýsti því þegar samningurinn var samþykktur að bankarnir hefðu hafnað öllum sínum kröfum, um afnám 66 þúsund króna hámarkshækkunar, um hækkun lægsta launa um lágmark 40 þúsund (þau hækka um 28 þúsund samkvæmt nýja samningnum), um styttingu vinnuvikunnar um 20 mínútur og um 2% hækkun iðgjalds í lífeyrissjóð.

Samninganefnd SSF ákvað eftir að hafa fundað með formönnum aðildarfélaga að skrifa undir samninginn þar sem hún taldi ekki skynsamlegt að ganga til aðgerða fyrir eins árs samning.

„Samningurinn var undirritaður í tveimur aðskildum herbergjum. Slíkt hefur aðeins einu sinni gerst hjá Ríkissáttasemjara, en oft verið beðið um það. Í þetta skipti þótti við hæfi að verða við kröfunni um að hafa ekki sameiginlega undirskrift. Í samræmi við það voru heldur engar vöfflur bakaðar,“ segir Ari.