Gríðarlegar breytingar hafa orðið á starfsmannamálum bankanna síðan þeir hrundu. Ef tekið er mið af þeim starfsmönnum sem eru innan Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) þá hafa 1.300 starfsmenn misst vinnuna síðan í mars á síðasta ári þegar uppsagnir hófust.

Að sögn Friðberts Traustasonar, framkvæmdastjóra SSF, voru yfir 5.000 bankamenn í samtökunum þegar mest lét og lætur því nærri að 25% félagsmanna séu búnir að missa vinnuna. Fjöldi aðildarfélaga nú er orðinn sá sami og hann var um áramótin 2003/2004.

Áhrif af falli Straums-Burðarás Fjárfestingabanka eru ekki inni í þessum tölum en þar hafa starfað um 100 manns hér á landi.

Um það bil 95% starfsmanna banka eru innan vébanda SSF en segja má að það hafi aðeins verið efsta lagið í bönkunum sem var ekki þar innanbúðar. Það eru einmitt tilfærslur meðal þeirra sem hafa vakið mesta athygli að undanförnu.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .