Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag og segir fréttavefur Reuters að skýrsla greiningadeildar bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs um að evrópskir bankar þyrftu að afla sér verulegs fjármagn á næstunni hafi haft hvað mest áhrif á markaði í dag.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 1,2% og hefur lækkað um 2,4% í vikunni. Þá hefur vísitalan lækkað um 23% frá áramótum að sögn Reuters.

Bankar og fjármálafyrirtæki leiddu lækkanir dagsins eins og gefur að skilja. Þannig lækkaði RBS um 3,2%, Barclays um 3%, BNP Paribas um 2,8% og HBOS um 2,5% svo dæmi séu tekin.

Mestu lækkun dagsins átti þó breska lánafyrirtækið Bradford & Bingley sem lækkaði um 18% en félagið viðurkenndi í dag að það þyrfti að auka hlutafé sitt um tæpa 800 milljónir Bandaríkjadala til að halda rekstri sæmilegum eins og Reuters orðar það.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,2%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 1,3% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 1,3% sömuleiðis.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 1,8% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 1%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,7%, í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 1,2% en í Osló stóð OBX vísitalan í stað.