*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Innlent 24. janúar 2021 14:03

Bankar þurfa að taka meiri áhættu

Jón Daníelsson segir að gera þurfi bönkum kleift að styðja í meira mæli við nýsköpun. Aukið regluverk bitni á hagvexti framtíðar.

Ingvar Haraldsson
Jón Daníelsson.
Eva Björk Ægisdóttir

Við þurfum banka sem taka meiri áhættu, ekki minni,“ segir Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics og forstöðumaður rannsóknarseturs um kerfisáhættu í fjármálakerfinu.

Jón hefur áhyggjur af því að afleiðing COVID-19 kreppunnar verði enn strangari reglur um fjármálakerfið bæði hér á landi og erlendis sem muni koma niður á hagvexti framtíðar. Þá ætti íslenska ríkið að stefna að því að selja allan eignarhlut sinn bæði í Íslandsbanka og Landsbankanum.

„Stefna íslenskra yfirvalda frá því í hruninu hefur í of miklu mæli miðast við að takmarka áhættu fjármálakerfisins. Þegar bankar taka áhættu eru þeir að hjálpa litlum nýsköpunarfyrirtækjum sem að hafa mestu von til framtíðar. Við þurfum að stuðla að því að bankarnir taki áhættusamari lán til að hjálpa þessum fyrirtækjum,“ segir Jón.

„Við vitum að það er ekki lengur hægt að reiða sig á ferðamenn. Við þurfum fyrirtæki sem nýta vel menntað starfsfólk á háu tæknistigi. Það þarf einhver að vera tilbúinn að hjálpa slíkum fyrirtækjum.“

Til að svo megi vera þurfi að breyta regluverki fjármálakerfisins og opna á samkeppni. „Fjármálaumhverfi þar sem þrír stórir bankar gnæfa yfir allt annað er ekki mjög heilbrigt. Regluverkið þarf að opna í meira mæli á samkeppni, bæði innanlands og erlendis frá. Það er til nóg af fjármagni á Íslandi til að fjárfesta í fyrirtæki sem gæti keppt við stóru bankana ef regluverkið leyfði það.“

Þyngra regluverk hindrar ekki kreppur

Þegar COVID-19 kreppan hófst í mars á síðasta ári brugðust seðlabankar heimsins við með margskonar aðgerðum til að blása krafti í efnahagslífið og koma í veg fyrir að kreppa í raunhagkerfinu yrði að fjármálakreppu. Ríkisvaldið hafi getað stutt beint við þau fyrirtæki og einstaklinga sem fóru verst út úr kreppunni. Hins vegar hafi lækkun stýrivaxta og aðgerðir til að auka lausafé litlu breytt. „Bankar vilja ekki lána út vegna óvissu í efnahagslífinu,“ segir Jón.

Ástæðan fyrir því að fjármálakerfið hafi staðið áfallið af sér var að bankarnir stóðu mun betur en árið 2008, bæði á Íslandi og annars staðar. „Það var enginn lausafjárvandi hjá bönkum í mars á síðasta ári. Því var ekki hætta á lausafjárkreppu.“

Hins vegar bendi margt til þess að aðgerðir seðlabanka hafi aukið áhættu í fjármálakerfinu til lengri tíma. „Okkar rannsóknir sýna að yfirvöld gátu komið til bjargar til skamms tíma síðastliðið vor á kostnað langtímaáhættu. Þetta er endurtekning á því sem gerðist árið 2008.“

Freistnivandi skapist fyrir þá sem starfa í fjármálakerfinu að taka meiri áhættu séu væntingar um að yfirvöld bjargi fjármálafyrirtækjum í kreppum. Vegna þessa vilji yfirvöld hafa meira að segja um hvernig leikendur í fjármálakerfinu hagi sér. Þeir sem starfi á fjármálamörkuðum muni hins vegar finna nýjar leiðir fram hjá regluverkinu sem komi í ljós í næstu krísu og þá verði regluverkið þyngt enn frekar.

„Ég er sannfærður um að það muni ekki minnka líkur á annarri krísu því að í grunninn eru stjórnvöld að skipta sér af geira sem þau skilja ekki.“

„Það sem kemur sér best fyrir stöðugleika fjármálakerfisins er að búa til kerfi sem er margbreytilegt. Það sem þarf er að búa til fjármálakerfi þar sem regluverkið er ólíkt eftir gerð fyrirtækja. Þannig að ólík fyrirtæki bregðist ólíkt við atburðum svo það dempi sveiflur en magni þær ekki upp. Það er þveröfugt við þróunina í dag.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér