Fjármálageirinn á sjálfur að hafa frumkvæði að björgunaraðgerðum eigi bankar í lausafjárvandræðum að fá hjálp.

Þetta segir ráðherra viðskipta- og efnahagsmála Danmerkur, Lene Espersen, í samtali við Børsen í gær en Espersen er jafnframt formaður Íhaldsflokksins í Danmörku.

Espersen kveðst ánægð með að fjármálageirinn í Danmörku vinni nú sjálfur að björgunaráætlun fyrir banka í lausafjárskorti.

Espersen er nýtekin við ráðherraembætti viðskipta- og efnahagsmála, en Anders Fogh Rasmussen stokkaði upp í ríkisstjórn sinni á dögunum. Hún var áður dómsmálaráðherra. Espersen telur æskilegt að einkageirinn útbúi áætlun sem forði ríkinu frá því að þurfa að grípa inn í markaðinn.

„Hið mikilvæga er að fjármálageirinn er einkageiri þar sem fólk getur hagnast ógurlega – og það hafa margir gert á síðustu árum. Það gengur ekki upp að ríkið og skattborgarar þurfi að koma til bjargar og taka á sig tapið þegar markaðurinn gefur eftir. Þessir ákveðnu aðilar [sem vilja hjálp] tóku mikla áhættu og keyrðu á slæmu viðskiptamódeli ," segir Espersen í samtali við Børsen.

Espersen hefur setið í embætti sínu í rúmar tvær vikur og bar því ekki ábyrgð á þeirri ákvörðun að danski seðlabankinn tæki yfir Roskilde Bank. Hún styður engu að síður þá aðgerð.

„Það þurfti að bjarga Roskilde Bank vegna stærðar hans og vegna mikilvægis stöðugleika í fjármálakerfinu. En ég tel að aðgerðir sem þessar séu ekki til fyrirmyndar, þótt þær hafi verið nauðsynlegar í tilfelli Roskilde Bank," segir hún.