*

mánudagur, 17. júní 2019
Innlent 17. febrúar 2019 16:05

Bankarnir brosandi yfir íbúðum

Áætlunum um uppbyggingu allt að 180 íbúða á Grensásvegi var tekið mun betur í bönkunum en fyrirhugað risahótel.

Höskuldur Marselíusarson
Hitaveita Reykjavíkur, og síðar Mannvit, var áður í húsnæðinu sem hýsir nú Kvikmyndaskóla Íslands. Hann verður því að finna sér nýjan stað, en stefnt er að því að rífa húsið eftir að skólaárinu lýkur í júní.
Haraldur Guðjónsson

Jón Þór Hjaltason, stjórnarformaður Fasteignafélagsins G1, sem hugðist byggja 300 herbergja risahótel á lóðinni sem Kvikmyndaskóli Íslands er nú til húsa, á Grensásvegi 1, segir að því haf verið mun betur tekið hjá bönkunum að byggja þarna upp í smærri áföngum, sem og svara mikilli eftirspurn á markaði fyrir minni íbúðir, eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá að er núna ætlunin.

„Við skiptum þessu í fjóra áfanga, þar sem hver áfangi er núna í kringum tvo til tvo og hálfan milljarð, sem er allt mun þægilegra og bankarnir því brosandi yfir þessu. Í fyrsta áfanga yrðu 40 íbúðir og við miðum við að þetta verði af öllum stærðum, en obbinn yrði svona 80 til 90 fermetra þriggja herbergja íbúðir. Þeir sem kannski eru að kaupa í fyrsta sinn þyrftu því ekki að flytja út strax og þeir eru komnir með eitt barn. Einnig væru þarna minni tveggja herbergja íbúðir,“ segir Jón Þór.

„Þessi staðsetning er alveg frábær fyrir íbúðir, sem og atvinnuhúsnæði á jarðhæð, því Glæsibær er hérna hinum megin, og svo sú mikla uppbygging sem er á lóð Orkuhússins hinum megin við Grensásveginn, í Laugardalnum með Suðurlandsbrautinni, og svo auðvitað í Skeifunni sjálfri. Þar er Bónus nýbúið að opna í nýju húsnæði, Krónan, og Hagkaup og fjölmargir veitingastaðir.“ 

Jón Þór er bjartsýnn á að hægt verði að byrja framkvæmdirnar strax í sumar. „Við erum svolítið heppnir því Mannvit var búið að steypa upp 3.000 fermetra þriggja hæða bílakjallara sem yrði grunnur undir fyrsta áfangann svo við getum í raun verið fljótir að reisa íbúðir þar ofan á. Bílastæði verða svo engin vandamál þarna því til viðbótar munum við setja bílakjallara á einni hæð undir hina áfangana. Síðan ef Borgarlínan kemur, þá er fyrirhugað að ein stoppistöðin verði þarna við hliðina á okkur, og við erum við helstu samgönguása borgarinnar,“ segir Jón Þór. 

„Samtímis því að byrja að byggja ofan á bílastæðakjallarann myndum við líklega rífa norðurhúsið, sem snýr að Glæsibæ. Þar er Kvikmyndaskóli Íslands til húsa, en hann þarf væntanlega að vera þar til 1. júní, svo við byrjum aldrei á því fyrr en eftir það. Markmiðið er því að byrja að reisa fyrsta áfangann, eða jafnvel fyrstu tvo, núna í haust.“

500 íbúðir á næstu lóð

Mikið er um að vera á Grensásveginum þessa dagana, en framkvæmdir við 80 herbergja hótel á Grensásvegi 16a, á gatnamótunum við Fellsmúla standa nú yfir. Auk þess hefur borgarstjórn boðað mikla uppbyggingu við Orkuhúsið, fyrrum höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur, hinum megin götunnar við þar sem nú er áætlað að byggja um 180 íbúðir á Grensásvegi 1.

Orkuhúsið sjálft mun fá að standa áfram, en atvinnuhúsnæðið sem er meðfram Ármúlanum mun víkja. Heildarbyggingarmagn á lóðinni er að lágmarki áætlað 45 þúsund fermetrar, með 400 til 500 íbúðum og atvinnuhúsnæði sem er 5 til 6 þúsund fermetrar. Loks er borgin með áætlanir um að byggja meðfram Suðurlandsbrautinni norðanmegin, sem væntanlega mun þó taka töluvert af Laugardalnum og væntanlega skyggja á útivistarsvæðið í dalnum.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is